Vorkoma Akureyrarstofu fór fram í Ketilhúsinu á Akureyri í dag, sumardaginn fyrsta. Þar voru tilkynntar ákvarðanir stjórnar Akureyrarstofu um heiðursviðurkenningar Menningarsjóðs, viðurkenningar Húsverndarsjóðs, viðurkenningu fyrir byggingalist, athafna- og nýsköpunarviðurkenningu Akureyrar og síðast en ekki síst var tilkynnt hver hlýtur starfslaun listamanna 2013-2014.
Það er niðurstaða stjórnar Akureyrarstofu að starfslaunin skuli hljóta Guðrún Pálína Guðmundsdóttir myndlistarkona.Guðrún Pálína er afar virk í listsköpun sinni. Hún hefur átt langan, stöðugan og farsælan feril og samfélagslegur þáttur hennar í listalífinu á svæðinu er umtalsverður. Einnig hefur hún hlotið viðurkenningu í íslensku myndlistarlífi fyrir reksturinn á GalleríPlús.
Alls voru fjórar heiðursviðurkenningar veittar úr Menningarsjóði og eru þær veittar fyrir mikilvægt framlag til menningarmála á Akureyri. Þessar viðurkenningar hlutu Gunnar F. Guðmundsson rithöfundur fyrir ævisögu Jóns Sveinssonar, Nonna, Zontaklúbbur Akureyrar, Bernharð Haraldsson fyrrum skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri og Saga Jónsdóttir leikkona.
Þrjár viðurkenningar voru veittar úr Húsverndarsjóði fyrir húsin að Brekkugötu 5, Hafnarstræti 107 B og Hafnarstræti 98 en allt eru þetta hús sem skipa mikilvægan sess í götumynd miðbæjarins á Akureyri. Tvær viðurkenningar voru veittar fyrir byggingalist: arkitektastofan Kollgáta fékk viðurkenningu fyrir kaffihús í Lystigarðinum og Arkþing og Arkitema í Danmörku fyrir innra skipulag menningarhússins Hofs.
Athafna- og nýsköpunarverðlaun Akureyrar voru veitt í fjórða sinn og komu í hlut Hölds fyrir þrautseigju og góðan rekstur og fyrirtækið Seigla hlaut viðurkenningu fyrir nýsköpun og frumkvöðlastarf.